image

Bændaglíman, uppskeruhátíð G.Í.

Uppskeruhátíð Golfklúbbs Ísafjarðar, Bændaglíman, var haldin á Tungudalsvelli s.l. sunnudag. Bændaglíman er golfmót þar sem skipt er í tvö lið og keppt er í Texas, betri bolta og samanlögðu. Formaður klúbbsins velur í annað liðið og formaður mótanefndar í hitt liðið. Keppnin átti að fara fram á laugardegi en þurfti að fresta því um einn dag vegna veður.

Það voru 44 mættir til leiks og spilað í ágætu veðri, níu holur. Keppnin gengur út á að vinna holu þar sem tveir eru á móti tveimur. Þetta er sama fyrirkomulag og notast er við í Ryder keppni Bandaríkjanna og Evrópu. Startað var út á öllum teigum jafnt.

Hart var barist en niðurstaðan varð sú að lið formans hafði betur, þar sem hans lið vann fleiri holur. Að loknu móti var sest að snæðingi í golfskálanum, dýrindis lambakjöt frá Hótel Ísafirði. Veislustjóri var Finni Magg, og stóð sína vakt með sóma.

Glímuna man ég miklu enn,
– mörgum þótti’ að gaman, —
er lærðir sína’ og leikir menn
leiddu hesta saman.
Bændur Páll og Glímu-Gestur, –
Grímseyjar hinn fyrri prestur.

Grímur Thomsen

image

Fimmtudagsmot og Bændaglímann

Í blíðviðri sumarsins og núna haustsins, er starfsemi golfklúbbsins á fullur. Í gær var haldið fjölmennt fimmtudagsmót í sól og blíðu.
Á morgun verður uppskeruhátíð klúbbsins með Bændaglímu, þar sem tvö lið keppa; lið formannsins og lið formanns mótanefndar. Að loknu móti verður boðið upp á kvöldverð þar sem okkar maður Finnur Magnússon mun stýra málum.
Ég hvet alla kylfinga til að mæta í þetta skemmtimót, en það hentar öllum kylfingum, hvort þeir eru snillingar eður ekki.
Skrá sig á golfbox svo við vitum fjöldann.
image

HG mótið og lok Sjávarútvegsmótaraðarinnar

HG mótið var haldið um síðustu helgi, en mótið er lokamót Sjávarútvegsmótaraðarinnar í golfi á Vestfjörðum. Í mótinu er keppt á golfvöllum á Vestfjörðum: Vesturbotnsvelli á Patreksfirði, Litlueyrarvelli á Bíldudal, Syðridalsvelli í Bolungarvík og Tungudalsvelli í Ísafjarðarbæ. Það eru fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi sem eru stuðningaðilar mótaraðarinnar.  Fyrirtækin eru:

  • ü Hraðfrystihúsið Gunnvör
  • ü Íslandssaga
  • ü Oddi Fiskvinnsla
  • ü Klofningur
  • ü Hampiðjan
  • ü Arctic Fish
  • ü Arnarlax

Mótaröðinni lýkur venjulega á Tungudalsvelli með tveggja daga móti, HG mótinu. Að þessu sinni var mótið skorið niður í einn dag, enda veðurspá slæm og útlit fyrir slagviðri á laugardeginum. Mótið var því klárað á sunnudegi, og óhætt að segja að veðrið hafi verið alls konar, en þó bærilegt fyrir golfara, hlýtt en skúraleiðingar annað slagið.

Fjörutíu golfarar voru mættir til leiks á sunnudagsmorgun, en keppt var bæði í punktakeppni og höggleik. Keppendur komu frá Vestfjörðum og einnig voru gestir komnir lengra frá.

Sigurvegari í höggleik í kvennaflokki var Bjarney Guðmundsdóttir á 86 höggum, Ásdís Birna Pálsdóttir í öðru sæti á 88 höggum og Björg Sæmundsdóttir í þriðja sæti á 89 höggum.

Í karlaflokki sigraði Páll Birkir Reynisson á 72 höggum, Flosi Valgeir Jakobsson var í öðru sæti á 76 höggum og Baldur Ingi Jónasson í þriðja sæti á 80 höggum.

Í unglingaflokki sigraði Haukur Fjölnisson.

Í punktakeppni sigraði Brynja Haraldsdóttir á 40 punktum, Ásdís Birna Pálsdóttir í öðru sæti á 39 punktum og Jakob Tryggvason var í þriðja sæti á 39 punktum.

Sigurvegari í Sjávarútvegsmótaröðinni var Flosi Valgeir Jakobsson.

Það er gaman að segja frá því að sigurvegari í kvennaflokki, Bjarney Guðmundsdóttir er amma sigurvegarans í karlaflokki, Páls Birkis Reynissonar. Það var einmitt amman sem kenndi barnabarninu golf á sínum tíma hér á Tungudalsvelli, og hefur skilað sér í afburða golfara í dag. Það er einmitt þannig með golfið að það er mjög fjölskylduvænt, og ekki óalgengt að ungir golfarar njóti leiðsagnar og félagskapar afa og ömmu við að tileinka sér þessa dásamlegu íþrótt. Fljótlega fer ungviðið fram úr gömlu brýnumun, en þau halda hins vegar áfram að njóta félagskapar hvors annars, og spila saman golf. Forgjafarkerfið gefur möguleika á að keppa hvor við annað, þó munur sé á getu í golfi, og er einmitt töfrar þessarar íþróttar. Bjarney og Páll Birkir voru einmitt saman í holli, ásamt Óla Reyni afa meistarans.