PIM OPEN

Þriðjudaginn 7. september var PIM OPEN mótið í golfi haldið í annað sinn á Tungudalsvelli. Fjórtán konur voru mættar til leiks þar sem keppt var með Texas scramble fyrirkomulagi.

Mótið er kvennamót haldið til minningar um Pimonlask Rotpitake (Pim) sem lést 22.júlí 2014. Pim var fædd í Thailandi og giftist Inga Magnfreðssyni og fluttist til Íslands.  Hún var mjög virk í félagsstörfum, var í Golfklúbbi Ísafjarðar og varð Vestfjarðameistari kvenna í golfi árið 2002. Hún lét sig margt varða, stóð m.a. fyrir styrktarmóti á Tungudalsvelli  fyrir línuhraðli á Landspítalanum.  Eftir mótið hélt hún eftirminnilega asíska veislu í golfskálanum og veitti verðlaun fyrir mótið, þar á meðal bikarinn sem keppt er nú um á þessu móti.

Þau hjónin voru áberandi á Tungudalsvelli, spiluðu golf alla daga og lögðu mikið af mörkum fyrir félegsstarfið. Pim lést eftir erfið veikindi árið 2014 og Ingi Magnfreðsson varð bráðkvaddur í golfferð í Tælandi árið 2016.

Að móti loknu var boðið til veislu í Golfskálanum þar sem sigurvegurum, Önnu Guðrúnu Sigurðardóttir og Sigrúnu Sigvaldadóttur var afhentur fallegur farandbikar.

Konur hafa komið saman á hverjum þriðjudegi í sumar og spilað saman golf á Tungudalsvelli. Mótið var uppskeruhátíð þessa kvennastarfs og heppnaðist í alla staði vel, veður mjög gott og völlurinn til fyrirmyndar. Ekið var með hressingu fyrir leikmenn um völlinn á meðan keppnin fór fram til að tryggja góðan árangur og mjúka golfsveiflu.


Deila