Meistaramót Gollfklúbbs Ísafjarðar
Meistaramót Golfklúbbs Ísafjarðar var haldið á Tungudalsvelli dagana 28. júní til 2. júlí. Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við keppendur sem flestir spiluðu 18 holur fjóra daga í röð. Byrjaði með vestan streng og súldarveðri og snerist síðan í norðan átt með úrhelli aðfaranótt laugardags, sem átti að vera lokadagur mótsins, og lauk síðan með köflóttu veðri á sunnudeginum. Það var ekkert annað að gera en bíta á jaxlinn, klæða sig vel og berjast gegn íslenskri veðráttu á blautum vellinum.
Þegar menn mættu á laugardagsmorgun hafði rignt um 100 millimetra um nóttina og völlurinn óspilandi. Loka degi var þá slegið á frest og ákveðið að klára mótið á sunnudegi.
Mjög góð þátttaka var í mótinu og mættu 9 manns í meistaraflokk, 9 í 2 flokki, 7 í 65 ára og eldri (4x9 holur), 4 konur í meistaraflokk, 2 í unglingaflokk, einn í 3 flokk og 5 konur í 2 flokki; samtals 37 manns.
Sigurvegari í meistaraflokki varð Anton Helgi Guðjónsson á samtals 294 höggum. Sólveig Pálsdóttir sigraði í meistara flokki kvenna. Guðni Ólafur Guðnason sigraði í 2 flokki og Vilhjálmur Gísli Antonsson í flokki 65 ára og eldri. Grétar Nökkvi Traustason sigraði ungilingaflokkinn og Einar Breki Baldursson 3 flokk. Í 2 flokki kvenna sigraði Guðrún Ásbjörg Stefánsdóttir.
Á sunnudeginum var slegið upp ítalskri veislu og síðan fór fram verðlaunaafhending. Þá voru allir búnir að gleyma barningnum í kalsa veðri og sudda, og þeir sem höfðu velt fyrir sér að hætta í golfi, voru búnir að gleyma því og fylltust bjartsýni á framtíðina og að sigurgangan væri handan við hornið. Það er einmitt þessi bjartsýni, þó hún eigi reyndar engan rétt á sér, sem heldur kylfingum gangandi, þannig að þeir halda ótrauðir áfram þó á móti blási og vonbrigðin svíði um stund.
Tungudalsvöllur hefur sjaldan komið betur undan vetri og þrátt fyrir risjótta tíð skartar hann sínu fegursta. Það er með veðrið eins og árangurinn hjá kylfingum, að fram undan er betri tíð með blóm í haga.
Rétt er að benda nýjum kylfingum á að búið er að slá kargann í kringum brautir á Efri-Tungu velli og ekkert til fyrirstöðu að taka kylfu í hönd og byrja að æfa. Golfklúbbur Ísafjarðar hefur sennilega aldrei staðið sig betur í golfkennslu en í sumar, haldin hafa verið námskeið fyrir alla aldursflokka undir góðri leiðsögn Viktors golfkennara og gaman að sjá alla nýliðana skila sér á völlinn. Klúbburinn fjárfesti í nýjum golfsettum sem hægt er að fá lánuð sett í golfskála, bæði fyrir börn og fullorðna, rétthenta og örfhenta.
Deila