Aðalfundur GÍ
Aðalfundur Golfklúbbs Ísafjarðar var haldinn miðvikudaginn 7. apríl s.l. Fundurinn var á netinu vegna Covid 19 og gekk það vonum framar.
Óhætt er að segja við þessi tímamót að rekstur klúbbsins hafi gengið vel þrátt fyrir mótbárur vegna faraldursins, en loka þurfti vellinum og klúbbhúsinu um tíma ásamt öðrum áskorunum vegna sóttvarna. Tvennt hjálpaði til og blés vindi í seglin í starfseminni; ferðalög landans innanlands sem skapaði góðar tekjur af teiggjöldum á golfvellinum, ásamt því að klúbbfélagar áttu ekki heiman gengt til útlanda sem birtist í mikilli þátttöku í golfmótum sumarsins.
Þetta tvennt eru helstu tekjulindir klúbbsins. Afleiddar tekjur af sömu ástæðu komu til í veitingarekstri golfskálans. Góður rekstur G.Í. gefur klúbbnum tækifæri á að ráðast í endurnýjun á búnaði og frekari uppbyggingu golfvallar og annara eigna hans.
Annað sem miklu máli skiptir við rekstur klúbbsins er mikil þátttaka félaga við sjálfboðavinnu við uppbyggingu á vellinum ásamt miklu og óeigingjörnu starfi nokkurra félagsmanna við rekstur hans. Klúbburinn rekur níu holu golfvöll í Tungudal, veitingarekstur í golfskála og Sundagolf, sem er golfhermir við Sundahöfn af bestu og nýjustu gerð. Þar geta félagsmenn og gestir spilað golf um „allan heim“ þegar kuldi og trekkur ríkir við Dumbshaf.
Jakob Tryggvason gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku í klúbbnum vegna mikilla anna í starfi sínu og breytinga á umhverfi þess. Í hans stað var Gunnar Þórðarson kosinn formaður Golfklúbbs Ísafjarðar en aðrar breytingar voru ekki gerðar á stjórninni.
Það eru spennandi tímar fram undan hjá Golfklúbbi Ísafjarðar og mikið af skemmtilegum tækifærum. Við andstreymi flensunnar mun klúbburinn leggja sig fram um að taka vel á móti ferðamönnum sumarsins, sem munu vonandi leggja (Ís)land undir fót og njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Sennilega eiga Íslendingar heimsmet í fjölda golfvalla miðað við höfðatölu og golfíþróttin er sú vinsælasta meðal almennings á Íslandi. Ekkert er því til fyrirstöðu að Golfklúbbur Ísafjarðar geti tekið vel á móti vestfirskum golfurum og ferðamönnum í sumar á hinum ægifagra skógarvelli í Tungudal og blómstrað áfram.
Fundargerð aðalfundar má finna hér.
Deila