Vorverkin í Tungudal
Félagar í Golfklúbbi Ísafjarðar fjölmenntu á fimmtudegi til að undirbúa golfvöllinn og skálann fyrir komandi vertíð, en völlurinn verður formlega opnaður á laugardaginn. Búið er að laga til í skálanum og byrjað að mála glugga og barinn, og mikið viðhald fram undan. Tré voru snyrt og felld til að bæta útsýni úr skála niður á golfvöllinn. Blómabeð voru snyrt og verður lögð áhersla á að gera aðkomu að skálanum snyrtilega og fallega.
Eitt hollið var að sanda flatir, stækka fjórða teiginn og sinna öðrum verkum á golfvellinum.
Mikil tiltekt átti sér stað þar sem gámar hafa staðið í áratugi, orðnir ryðgaðir og ljótir og hafa verið fullir af rusli. Terra kom með 20“ gám til að losa áratuga söfnun af brettum sem far inn í Funa. Glanni mun síðan sækja gámana eftir helgi og þeir munu fara í skip sem kemur í næstu viku til að hirða brotajárn. Það er ótrúlegt hversu miklu drasli hefur verið safnað í þessa gáma og í kringum þá, og full ástæða til að breyta þeirri menningu, ganga frá hlutum jafn óðum og henda rusli en safna því ekki saman fyrir seinni tíma tiltekt.
En klúbburinn mun fara inn í sumarið með völlinn í góðu ásigkomulagi, klúbbhúsið verður allt spikk og span og snyrtilegt í kringum athafnasvæði klúbbsins í Tungudal.
Deila