Starfsemi G.Í. komin á fullt
Sumarið er komið
Það er komið sumar og kylfingar búnir að flytja golfsettin úr Sundagolfi (golfhermi) inn á Tungudalsvöll. Völlurinn kemur mjög vel undan vetri með gróskumiklum gróanda. Laufið springur út og sveipar Tungudalinn grænum lit sumarsins.
Starfsemin er komin á fulla ferð og starfsmenn láta hendur standa fram úr ermum til að undirbúa velli undir sumarið. Það stendur mikið til hjá G.Í. í sumar. Í fyrra var það tiltekt og viðhald golfskálans, en nú er komið að andlitslyftingu á golfvöllum. Þessa dagana er verið að setja niður nýjar teigmerkingar og lagfæringu á flötum. Á nýju teigmerkingum verður QR kóði þar sem hægt verður með símanum að sjá flug yfir viðeigandi braut og legu flatarinnar. Allar brautir hafa fengið sitt nafn sem gefur vellinum aukinn karakter.
Gott ferðamannasumar fram undan
Við búumst við annasömu ferðasumri og ætlum að vera tilbúin að taka á móti kylfingum sem vonandi munu fjölmenna á Tungudalsvöll. Í golfskálanum er almennur veitingasalur þar boðið verður upp á hressingu, ekki bara fyrir kylfinga, heldur ferðamenn sem leið eiga um. Þúsundir ferðamanna aka fram hjá Golfskálanum á leið á tjaldstæðið í Tungudal.
Efri Tungu völlur
En það er ekki bara Tungudalsvöllur sem fær andlitslyftingu; mikið stendur til með lagfæringar á sex holu vellinum, sem nú heitir „Efri Tunga“. Búið er að semja við verktaka um að slá grasið í kringum völlinn í sumar, en það hefur fælt golfara frá því að spila völlinn að týna kúlum sem fara út af braut. Völlurinn verður sleginn og flatir hirtar. Búið er að kaupa nýjar stangir og bolla á flatir og því hægt að æfa púttin í sumar.
Efri Tunguvöllur er mikilvægur fyrir golfmenningu okkar hér í Ísafjarðarbæ. Þeir sem eru að byrja í golfi geta slegið þar gjaldfrítt og þegar þeir ná betri tökum á tækninni, gengur kylfingurinn í klúbbinn og færir sig yfir á Tungudalsvöll. Það má segja að Efri Tunguvöllur sé samfélagsverkefni Golfklúbbs Ísafjarðar.
Nýliðakennsla í golfi
Klúbburinn býður upp á nýliðakennslu í golfi, dagana 13.,14., og 15.júní n.k. kl. 20:00 – 21:00, gjaldfrjálst. Kennslan fer fram við níundu holuna (Adda Geir) við golfskálann.
Í næstu viku kemur Sigurður Hafsteinsson PGA golfkennari og heldur námskeið dagana 8.,9., og 10.júní á Tungudalsvelli, það er mikill fengur fyrir golfiðkendur að fá tækifæri til að pússa sveifluna í byrjun vertíðar.
G.Í. hvetur fólks til að kíkja við í skálanum á fögrum sumardögum og njóta veitinga, sem hvergi eru ódýrari á svæðinu.
Gleðilegt golfsumar
Gunnar Þórðarson formaður
Deila