Sjávarútvegsmótaröðin hafin á Tungudalsvelli
Um síðustu helgi var opnunarmót Sjávarútvegsmótaraðarinnar í golfi á Tungudalsvelli. Mótaröðin er samstarfsverkefni Vestfirskra golfklúbba og sjávarútvegfyrirtækja í fjórðungnum, þar með talin laxeldisfyrirtæki.
Það fer vel á því að Hampiðjan hafi riðið á vaðið, en fyrirtækið kemur nýtt inn í mótaröðina og tekur þátt í fyrsta sinn. Hampiðjan er eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði veiðarfæra og hefur haslað sér völl hér á Vestfjörðum. Ásamt þjónustu við sjávarútveginn, þjónustar það vaxandi laxeldi, m.a. með byggingu stórhýsis á Suðurtanga á Ísafirði. Þar er risin nótaþvottastöð, ásamt nýju netagerðarverkstæði, sem er það fullkomnasta í heimi. Fyrirtækið rekur útibú í 15 löndum með 42 starfsstöðvum. Hampiðjan byggir á gömlum merg og hefur verið starfrækt síðan 1934 og telur starfsmannafjöldinn 1200 manns.
Golfklúbbur Ísafjarðar fagnar þessum nýja bakhjarli og óskar fyrirtækinu til hamingju með flott golfmót og þakkar fyrir samstarfið.
Hampiðjumótið var haldið á laugardaginn í blíðskaparveðri og þátttaka var mjög góð með 39 þátttakendum. Sigurvegari í kvennaflokki var Bjarney Guðmundsdóttir á 88 höggum. Í karlaflokki sigraði Ásgeir Óli Kristjánsson 75 höggum, eftir að hafa háð bráðabana við Baldur Inga Jónasson.
Um næstu helgi verður keppt í Vesturbyggð, Oddamótið á Vesturbotnsvelli á laugardag og á sunnudag verður Arnarlaxmótið haldið á Litlueyrarvelli á Bíldudal. Veðurspá er góð fyrir helgina og eru golfarar hvattir til að heimsækja nágranna sína á vestursvæðinu og taka þátt í skemmtilegum golfmótum.
Gunnar Þórðarson, formaður
Deila