Sjávarútvegsmótaröð Vestfjarða í golfi
Sjávarútvegsmótaröðin var haldin um síðustu helgi, á Vesturbotnsvelli við Patreksfjörð á laugardaginn, og á Litlueyrarvelli við Bíldudal á sunnudaginn.
Vesturbotn Patreksfirði
Um fjörutíu kylfingar mættu til leiks á Odda mótinu í Vesturbotni við Patreksfjörð. Þó bjart væri í veðri og sólin yljaði, dugði það ekki til í norðan nepjunni. Kalt var þó heldur lagaðist hitastigið þegar á leið daginn. En keppendur létu þetta ekki á sig fá og völlurinn skartaði sýnu fegursta, og var klúbbnum á allan hátt til sóma, vel hirtur og sleginn.
Keppnin var æsispennandi í karlaflokki og eftir 18 holur stóðu þrír kylfingar uppi jafnir, á 73 höggum; Jón Gunnar Shiransson, Flosi Valgeir Jakobsson og Baldur Ingi Jónasson. Þeir háðu bráðabana á fimmtu holu vallarins, sem endar upp við golfskálann, og þarf að fara yfir læk áður en flötinni er náð. Fjöldi áhorfenda var að þessu einvígi. Flosi átti frábært högg sem endaði á miðri braut, aðeins 40 metrum frá stöng, Jón Gunnar lenti í karganum hægra megin við flöt en Baldur vinstra megin við heimreiðina. Jón Gunnar átti fullkomið inná högg en klúðraði púttinu, og fóru allir jafnt á pari. Aftur fóru þeir á teig og niðurstaðan var sú sama, allir á fjórum höggum. Í þriðju tilraun lenti Jón Gunnar hægra megin utan brautar, Baldur vinstra megin við heimreið en Flosi átti ævintýralegt upphafshögg, eitthvað á þriðja hundrað metra, en endaði í skurðinum. Hann endað því á skolla en hinir tveir náðu pari. Nú voru Jón Gunnar og Baldur látnir spila fyrstu og aðra holu vallararins til úrslita. Báðir slógu þeir inn að flöt í upphafshöggin, en bolti Jóns Gunnars lenti í skurði við hlið flatar. Hann reyndi að slá hann en mistókst og boltinn endaði ofan í vatni. Hann tók víti en púttaði ofan í holuna og náði pari og Baldur jafnaði. Þá var önnur holan spiluð og Jón Gunnar átti gott upphafshögg sem endaði nálægt flöt, en Baldur slæsaði út í kargann hægra megin. Leikar enduðu þannig að Baldur fór holuna á pari en Jón Gunnar á fugli og endaði sem sigurvegari í mótinu. Í kvennaflokki sigraði Björg Sæmundsdóttir á 86 höggum. Í punktakeppni með forgjöf sigraði Helgi Aage Torfason með 43 punkta. Eftir þetta æsispennandi mót bauð Oddi upp á veitingar og úthlutaði verðlaunum.
Litlueyrarvöllur við Bíldudal
Arnarlax mótið var háð á Bíldudal á sunnudeginum í köldu en meinlausu veðri. Völlurinn var í góðu ástandi og vel hirtur og voru 50 manns mætt til leiks í Vesturbotni. Tvær hetjur gærdagsins byrjuðu ekki vel þar sem Jón Gunnar fór fyrstu holuna á sex höggum, en Flosi á 10 höggum. Það er erfitt að byrja svona illa og þarf sterk bein til að setja slíkt aftur fyrir sig og halda á keppni með hausinn í lagi.
Það var með ólíkindum hvernig þeim tókst til að snúa leiknum við sér í hag, Jón Gunnar náði fyrsta sætinu á 72 höggum og Flosi á 73 höggum. Í kvennaflokki sigraði Björg Sæmundsdóttir á 81 höggi. Í punktaflokki með forgjöf sigraði Brynja Haraldsdóttir.
Næsta mót verður laugardaginn 9. júlí þegar Íslandsögumótið verður á Tungudalsvelli. Á sunnudeginum verður svo Klofningsmótið haldið á Syðridalsvelli í Bolungarvík.
Gunnar Þórðarson
Á miðvikudaginn hefst meistaramót Golfklúbbs Ísafjarðar og verður spilað frá miðvikudegi og fram á laugardag.
Deila