Minningamót um Birgir Valdimarsson
Sunnudaginn 28. júlí var haldið minningarmót um Birgi Valdimarsson, fyrrum félaga í Golfklúbbi Ísafjarðar. Met aðsókn var og þurfti að loka fyrir skráningu nokkrum dögum fyrir mótið, þar sem það var orðið fullt.
Leiknar voru 18 holur með Texas fyrirkomulagi, þar sem tveir kylfingar eru í liði og betri bolti talinn miðað við forgjöf. Startað var út á öllum teigum í einu, og þurfti sex í eitt hollið til að koma öllum fyrir. Mótið gekk einstaklega vel fyrir sig og létt yfir leikmönnum, algjörlega í anda Bigga heitins. Flestir höfðu keppt í Íslandsbanka mótinu daginn áður og voru því í góðu formi. Hópur af brott fluttum Ísfirðingum voru mættir til að heiðra minningu Bigga Vald og einstaklega gaman að fá þá í heimsókn. Veðrið var með besta móti, hlýtt og logn, en örlítil súld þegar leið á daginn.
Í fyrsta sæti voru bræðurnir Elmar Breki og Tómas Orri Baldurssynir. Í öðru sæti voru Hanna Mjöll Ólafsdóttir og Jakob Ólafur Tryggvason. Í þriðja sæti voru Kristín Hálfdánsdóttir og Gunnar Þórðarson.
Biggi hefði orðið 90 ára þriðjudaginn 30. júlí n.k. Sjálfur taldi hann að þetta væri ekki alveg rétt talið, þar sem hann hefði komið á götuna 14 ára gamall þegar hann flutti á mölina, en hann ólst upp í Miðvík við Aðalvík á Ströndum.
Birgir gekk í hjónaband með Maríu Erlu Eiríksdóttur 1957 og áttu þau einstaklega farsælt líf saman. Þau vöru tíðir gestir á Tungudalsvelli, óku um á golfbíl sem var nokkur nýlunda hjá okkur í Golfklúbbnum.
Hann var alla tíð lífsglaður og einstaklega orðheppinn, eitt af hans síðustu verkum var að keyra um á golfbílnum og hvetja keppendur í árlegu kvennamóti GÍ á Tungudalsvelli, þær sem vildu, þáðu „sveiflujafnara“ hjá Bigga, hann talaði um að mýktin í sveiflunni kæmi með góðum sopa.
Í Texas móti koma allir keppendur saman í hús á sama tíma og óhætt að segja að þröngt hafi verið á þingi í Golfskálanum. Verðlaunin voru einstaklega vegleg, en veitt voru þrenn verðlaun ásamt verðlaunum fyrir þá sem næstir voru holu á par þrjú brautum og fullt af útdráttarverðlaunum
Það var einmitt Biggi sem tók þátt í að halda minningarmót um annan golf jöfur okkar ísfirðinga, Einar Val Kristjánsson. Þau mót voru árlegur viðburður og voru oftar en ekki tveggja daga mót. Eitt sinn var Toyota Corolla frá Bílatanga og Toyota umboðinu í verðlaun fyrir þann sem næði holu í höggi á sjöttu braut. Ekki vannst bíllinn í þessu móti, en það mun hafa verið Biggi sem stóð fyrir tiltækinu.
Fjölskylda Birgis var viðstödd mótið og verðlaunaafhendinguna, ekkja hans Erla, börn hans og barnabörn. Golfklúbbur Ísafjarðar vil þakka þeim kærlega fyrir þetta glæsilega minningarmót og vonast til að hægt verði að endurtaka leikinn næsta sumar.
Deila