Ísfirðingar á Íslandsmóti unglinga
Mótið fór fram á Hlíðavelli, hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Hjálmar Helgi Jakobsson keppti í flokki 13-14 ára og er á eldra árinu í þeim flokki og Jón Gunnar Shiransson keppti í flokki 15-16 ára og er á sínu yngra ári í þeim flokki. Leiknar voru 54 holur, 18 holur hvern keppnisdag.
Hjálmar er búinn að vera í miklum framförum þetta sumar og sýndi það á fyrsta keppnisdegi, spilaði flott golf og var í öðru sæti eftir fyrsta dag, hann spilaði á 79 höggum, 7 yfir pari vallarins. Á öðrum degi spilaði hann á 88 höggum og datt niður um nokkur sæti. Hjálmar kom einbeittur í síðasta keppnishringinn og þurfti að ná góðu skori til þess að klífa upp sætalistann, spilaði sinn besta hring í mótinu á 78 höggum. Það skilaði honum 5 sætið, góður árangur.
Jón Gunnar er einnig búinn að vera í miklum framförum þetta sumar og hefur staðið sig með prýði í sumar á mótum GÍ. Fyrsti keppnidagurinn var erfiður hjá Jóni og spilaði Jón á 87 höggum og fjarri sínu besta formi. Það var á brattan að sækja og endaði hann daginn í 18 sæti og í hættu á að komast ekki í gegnum niðurskurð. Á öðrum degi var dagsformið betra og spilaði hann á 80 höggum og byrjaði með látum á seinni 9 með 3 fugla tvö pör en hélt ekki dampi en kleif samt upp sæta listann með spilamennsku sinni. Á síðasta degi spilaði Jón á 84 höggum og uppskar að lokum 10 sætið.
Drengirnir voru Golfklúbbi Ísafjarðar til sóma og voru prúðmannlegir og gerðu sitt besta. Það vakti undrun að kapparnir eru að gera þetta á sínum forsendum án formlegrar þjálfunar og þjálfara en njóta góðs af nándinni, spil og keppni við eldri leikmenn GÍ. Sé tekið mið af því að þeir eru að keppa við kylfinga sem eru í stöðugri þjálfun allt árið í skipulögðu starfi þá verður árangurinn að teljast nokkuð góður.
Deila